Skilmálar

Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar Atmos Cloud, sem gilda skulu um viðskipta- og samningskjör Atmos Cloud og dótturfélaga þess á hverjum tíma fyrir sig.

Atmos Cloud áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum og munu breytingar verða tilkynntar með 30 daga fyrirvara.

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi 1. febrúar 2023.

1. Gildissvið

Undir viðskiptaskilmála þessa falla öll viðskipti og samningar Atmos Cloud og dótturfélaga, þar á meðal tilboð, við þriðja aðila um kaup á vöru og þjónustu, nema um annað sé samið með skriflegum hætti.

Sértækir viðskiptaskilmálar á tilteknum sviðum geta einnig átt við um viðskipti og samninga Atmos Cloud og dótturfélaga þess við þriðja aðila um kaup á vöru og þjónustu.

Viðskiptaskilmálarnir eru ófrávíkjanlegir og gilda um öll þau atriði sem fram í þeim koma, nema sérstaklega sé um þau samið með skriflegum hætti. Skulu allar breytingar á samningsskjölum vera skriflegar og undirritaðar. Frávik frá viðskiptaskilmálunum teljast ekki samþykkt af hálfu Atmos Cloud fyrr en undirritað samþykki Atmos Cloud liggur fyrir.

Um kaup einstaklinga utan atvinnurekstrar á hvers kyns vöru og/eða þjónustu gilda lög um neytendakaup nr. 48/2003 og lög um þjónustukaup nr. 42/2000, ef ákvæði þeirra laga eru slíkum aðilum hagstæðari en þessir viðskiptaskilmálar kveða á um.

Kaup á hvers kyns vöru eru almennt háð lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, þar sem ákvæðum þessara skilmála, samningi eða viðskiptavenju milli aðila sleppir.

2. Samningur

Samningur telst kominn á þegar samningur, samningsviðauki eða eftir atvikum tilboð hefur verið undirritað(ur) eða eftir atvikum samþykkt(ur) skriflega af báðum aðilum með öðrum hætti, til dæmis með samþykki á tilboði í tölvupósti.

2.1. Gildistími tilboðs

Atmos Cloud ákveður gildistíma tilboðs og telst ekki bundið af tilboði hafi það ekki verið samþykkt af viðskiptavini með formlegum hætti (þar á meðal með samþykki í tölvupósti) innan gildistíma þess.

2.2. Gildistími samninga

Ef ekki er kveðið á um gildistíma samnings í samningi á milli aðila, skal samningur gilda í 12 mánuði og vera óuppsegjanlegir á þeim tíma. Að þeim tíma liðnum skal samningur framlengjast um ár í senn, en vera uppsegjanlegur hvenær sem er á þeim tíma í samræmi við ákvæði 2.3 í þessum skilmálum.

2.3. Uppsagnarfrestur

Ef ekki er kveðið á um uppsagnarfrest samninga í samningi á milli aðila, skal uppsagnarfrestur samnings vera 3 mánuðir. Uppsögn tekur gildi um mánaðarmót eftir að hún berst og byrjar þá uppsagnarfrestur að líða. Uppsögn skal vera skrifleg og afhent með sannanlegum hætti.

2.4. Misræmi í skilmálum

Ákvæði sértækra viðskiptaskilmála, samninga og samþykktra tilboða skulu ganga framar almennu viðskiptaskilmálum þessum.

3. Endurgjald og greiðsluskilmálar

3.1. Gjaldtaka

Um endurgjald fyrir vöru og/eða þjónustu skal fara eftir gildandi gjaldskrá fyrir hverja vöru/og eða þjónustu Atmos Cloud á hverjum tíma, nema um annað sé samið sérstaklega.

3.2. Staðgreiðsla

Vörur og/eða þjónustu skal staðgreiða nema um annað hafi verið samið sérstaklega. Annar greiðslumáti en samkvæmt greiðsluseðlum eða reikningi telst ófullnægjandi.

3.3. Reikningsviðskipti

Hafi verið samið um annan greiðslumáta en staðgreiðslu skal Atmos Cloud senda út reikning fyrir selda vöru og/eða þjónustu. Reikningar frá Atmos Cloud skulu vera sundurliðaðir og eftir atvikum studdir fylgiskjölum til þess að unnt sé að sannreyna þá. Gjalddagi sem og eindagi reiknings er almennt fyrsta virka dag hvers mánaðar eða u.þ.b. 10 dögum eftir útgáfu reiknings. Reiknast dráttarvextir á reikninga sem greiddir eru eftir eindaga í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Við vanskil reikninga reiknast dráttarvextir frá eindaga til greiðsludags.

Athugasemdir vegna útgefinna reikninga skulu berast fjármálasviði Atmos Cloud innan 30 daga frá útgáfudegi reiknings á netfangið reikningar[hjá]atmos.is. Verði ágreiningur um fjárhæð reiknings er viðskiptamanni einungis heimilt að bíða með greiðslu á þeirri fjárhæð sem raunverulegur ágreiningur er um.

3.4. Aukaverk

Aukaverk teljast öll verk sem ekki falla innan samnings. Slík verk eru háð sérstöku samkomulagi á milli aðila og eru reikningsfærð sérstaklega samkvæmt tímagjaldi. Fyrir slíka vinnu skal greitt samkvæmt gjaldskrá Atmos Cloud eins og hún er á hverjum tíma, nema um annað hafi verið samið í samningi. Ef nauðsynlegt er skal Atmos Cloud vera heimilt að grípa til aðgerða til varnar tjóni fyrir viðskiptavin án samþykkis hans og skal farið með slíkar aðgerðir sem aukaverk. Óski viðskiptavinur eftir úttekt á þeim kerfum sem Atmos Cloud hefur í rekstri, verkefnum sem Atmos Cloud vinnur eða þjónustu sem Atmos Cloud veitir skal greitt fyrir slíka vinnu samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.

3.5. Ferðakostnaður og útlagður kostnaður

Sé viðskiptavinur staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins, skal hann greiða Atmos Cloud ferðakostnað og uppihald sérstaklega, nema um annað sé samið. Slíkur kostnaður skal reikningsfærður eftir gjaldskrá Atmos Cloud.

Viðskiptavinur skal greiða útlagðan kostnað sem Atmos Cloud hefur stofnað til í þágu viðskiptavinar.

3.6. Breytingar á gjaldskrá og umsömdum gjöldum

Atmos Cloud áskilur sér einhliða rétt til að endurskoða þjónustugjöld, uppfærslugjöld og leyfisgjöld á grundvelli eftirfarandi þátta, nema um annað sé samið á milli aðila. Slíkar breytingar geta haft áhrif á mánaðarleg gjöld samnings:

1) Mánaðarlegt gjald vegna endursölu á hugbúnaði eða annarri vöru eða þjónustu sem keypt er beint af birgja á samningstíma og tilgreint er í verðtilboði endurskoðast reglulega gagnvart:

  • gengi þess gjaldmiðils sem innkaup eiga sér stað í og
  • breytingum á gjaldskrá hlutaðeigandi birgis.

2) Almenn gjaldskrá vegna vinnu sérfræðinga er endurskoðuð reglulega með tilliti til breytinga á kostnaði Atmos Cloud við að þjónusta viðskiptavini.

3) Önnur gjöld eru uppfærð reglulega samkvæmt breytingum á neysluverðsvísitölu. Ef grunngildis vísitölunnar er ekki getið í samningi, skal miðað við grunngildi hennar þann dag sem samningur var undirritaður á milli aðila.

Afsláttarkjör viðskiptavinar breytast ekki nema með samkomulagi beggja samningsaðila.

4. Gjaldskrá

Tímagjald í fjarvinnu er frá 26.900 kr. án vsk.
Ef vinna er í húsakynnum viðskiptavinar bætist við 1 klst við vinnutíma.

 Tímabil við vinnu Tegund vinnu Lágmarks tímafjöldi
  Vinna á opnunartíma Fjarvinna 1
* Vinna utan opnunartíma Fjarvinna 2
** Vinna á stórhátíðardögum Fjarvinna 4
   Útkall – Á opnunartíma Fjarvinna 1
   Útkall – Utan opnunartíma Fjarvinna 2
   Ráðgjafaverkefni Tilboð  

* 40% álag á tímafjölda við vinnu frá 17:00 – 23:00 og 90% álag á tímafjölda við vinnu frá 23:00 – 8:00.

** 100% álag.

5. Sala á þjónustu

5.1. Verksamningar

Verksamningar gilda á meðan að vinnslu verkefnis stendur. Verksamningur er óuppsegjanlegur á samningstímabili nema ákvæði um riftun eigi við eða aðilar hafi sérstaklega samið um annað. Gjald fyrir verksamninga skal vera samningsatriði hverju sinni og koma fram í grunnsamningi, samningsviðauka eða eftir atvikum tilboði.

5.2. Þjónustusamningar og þjónustustigssamningar

Þjónustusamningar og þjónustustigssamningar eru samningar sem gerðir eru á milli Atmos Cloud og viðskiptavinar um tiltekna þjónustu af hálfu Atmos Cloud. Slíkir samningar geta ýmist verið séraðlagaðir fyrir viðskiptavin eða staðlaðir fyrir ákveðna þjónustu eða vöru. Ákvæði þessara samninga innihalda markmið um ákveðið þjónustustig en ekki loforð, nema slíkt sé sérstaklega tekið fram í samningnum.

Hvor samningsaðili um sig ber ábyrgð á störfum starfsmanna sinna, er koma að framkvæmd þjónustusamninga og þjónustustigssamninga. Atmos Cloud getur að eigin vali ráðstafað starfsmönnum sínu til að veita þjónustu samkvæmt samningnum eða fengið til þess undirverktaka eða starfsmenn þriðja aðila. Gerð samnings stendur ekki í vegi fyrir því að Atmos Cloud eða undirverktakar þess leysi af hendi hliðstæð þjónustuverkefni fyrir aðra aðila.

5.3. Ábyrgðarþjónusta

Atmos Cloud veitir ábyrgðarþjónustu í samræmi við ákvæði viðskiptaskilmála, laga um lausafjárkaup, laga um þjónustukaup, laga um neytendakaup og eftir atvikum í samræmi við söluskilmála birgja eða framleiðanda.

6. Óviðráðanleg atvik – Force Majeur

Hvorki Atmos Cloud né viðskiptavinir þess eiga rétt til skaðabóta á hendur gagnaðila þegar vanefndir orsakast af óviðráðanlegum eða ófyrirséðum atvikum sem ekki eru til staðar við samningsgerð, svo sem vinnudeilum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, aðgerðum stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, breytingum stjórnvalda á lögum og reglugerðum, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og sambærilegum óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.

7. Upplýsingaöryggi og trúnaðarskyldur

Atmos Cloud skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi gögn og málefni sem því verður kunnugt um viðskiptavin og skjólstæðinga hans.

Samningur á milli aðila er trúnaðarmál og skal því aðeins dreift til þeirra sem hafa með framkvæmd hans að gera og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er.

Starfsmenn Atmos Cloud undirrita heit um trúnaðarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptavina Atmos Cloud sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum viðskiptavinar eða eðli máls. Helst trúnaðarskylda eftir að samningi er lokið.

Viðskiptavinur er bundin trúnaðarskyldu um málefni Atmos Cloud sem hann fær vitneskju um vegna framkvæmdar samnings og helst trúnaðarskylda eftir að samningi er lokið.

Atmos Cloud kann að vera skylt samkvæmt lögum eða dómsúrskurði að verða við kröfu yfirvalda um afhendingu gagna viðskiptavina í hýsingu, afhendingu upplýsinga sem varða viðskiptasamband við viðskiptavin eða aðgang að vélbúnaði í hýsingu. Komi upp slíkt tilvik skal Atmos Cloud án tafar upplýsa viðskiptavin sem málið. Kostnaður sem fellur á Atmos Cloud vegna aðgerða yfirvalda gagnvart viðskiptavinum telst vera aukaverk og greiðir viðskiptavinur fyrir slíka vinnu samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.

8. Persónuvernd

Vinnsla persónuupplýsinga er í samræmi við lög nr. 90/2018 eins og nánar er tilgreint í persónuverndarstefnu Atmos Cloud sem er aðgengileg á heimasíðu félagsins, www.atmos.is.